Hverfið milli fells og fjöru

Fréttir

Verkefnið

Búið er að afmarka svæðið og festa grænu geirana en enn er verið að máta húsaform á svæðið.

Nú stendur yfir deiliskipulagsvinna fyrir fyrsta áfanga. Um er að ræða u.þ.b. 30-35 hektara landsvæði sem liggur upp að núverandi byggð í Þrastarhöfða.

Í þessum áfanga er gert ráð fyrir u.þ.b. 1200 íbúðum, sem verða í formi sérbýla sem og fjölbýla. Jafnframt er gert ráð fyrir nýjum skóla og leikskóla á svæðinu.

Þá verður gamli Blikastaðabærinn gerður upp og glæddur lífi.

Deiliskipulag

Sveitarfélagið Mosfellsbær leggur áherslu á góða tengingu við aðliggjandi náttúru sem og að vera heilsueflandi samfélag.

Skipulagshönnuðir Blikastaðalands hafa þessi gildi Mosfellsbæjar í hávegum og fyrir vikið er skipulagið unnið út frá náttúrugæðum svæðisins eða eftir aðferðarfræðinni „nature-based-approach“ .

Þetta er spennandi nálgun sem afmarkar græn svæði og ofanvatnsrásir áður en byggingarreitir eru útbúnir. Með þessu móti skapast skemmtilegt samspil villtrar náttúru við byggð svæði.

Þá verður skipulagið jafnframt BREEAM vistvottað en slík vottun er ákveðin trygging á gæði hverfisins.  Með vottuðu skipulagi er ekki eingöngu umhverfisáhrif skoðuð heldur krefur vottunarferlið hönnuði til að hugsa út í alla þætti sem hafa áhrif á gæði skipulags. Þetta ýtir undir öguð vinnubrögð og tryggir að engir þættir séu afskiptalausir.

Hjarta hverfisins er og verður gamli Blikastaðabærinn, reisulegur bær með mikla sögu, sem mikilvægt er að varðveita. Stefnt er að því að standsetja gamla bæinn og útihúsin og glæða þau lífi, til dæmis með matsölustað, kaffihúsi og menningartengdri starfsemi.

Elstu heimildir um búsetu á Blikastöðum eru frá 1234 og því ljóst að búseta hefur verið á staðnum í tæplega 800 ár. Með nokkurri vissu má fullyrða að bæjarhúsin hafi staðið á svipuðum stað allan tímann. Núverandi íbúðarhús er talið vera byggt árið 1924 og var stækkað til vesturs 1947.

Fjósbyggingin reis á árunum 1924 til 1930 en það var síðan stækkað 1952. Eldri hlaða er talin hafa verið byggð 1920 og sú yngri 1936. Hesthúsið er líklega byggt á árunum 1924 til 1928.

Settu músina yfir hnappana og sjáðu svæðin lýsast upp


Náttúran

Svæðið státar af stórkostlegri umgjörð, með Úlfarsá og Blikastaðakró til vesturs, Úlfarsfellið handan Vesturlandsvegar til austurs og Esjuna til norðurs

Útivistarperlan Úlfarsfell er að hluta í landi Blikastaða. Í hlíðum þess eru skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og nýtur fellið fádæma vinsælda meðal göngufólks.

Við Úlfarsána (Korpu) er auðugt lífríki og fjölskrúðugt fuglalíf. Laxveiði er í ánni og meðalveiði undafarin 10 ár hefur verið 200 laxar.

Úlfarsá fellur til sjávar í Blikastaðakró sem var friðlýst á degi íslenskrar náttúru árið 2022. Örstutt er í fjöruna í Blikastaðakró frá Blikastöðum en svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla.

Fallegur fjallahringur sést frá Blikastöðum. Úlfarsfell, Lágafell, Helgafell, Mosfell eru þar á meðal og ekki má gleyma sjálfri Esju. Þá er gott útsýni yfir Reykjavík og í góðu skyggni má sjá Akrafjall og alla leið upp á Snæfellsnes.

Afþreying

Mosfellsbær býður upp á mikla möguleika til útivistar og er nálægðin við einstaka náttúru og fallega staði sérstaða bæjarins.

Náttúruunnendur, golfarar, göngufólk, hestafólk og aðrir með áhuga á almennri útivist eiga öll að geta fundið sig í sínum áhugamálum á Blikastöðum.
Tveir golfvellir, Hlíðarvöllur í Mosfellsbæ og Korpúlfstaðavöllur sem tilheyrir Reykjavík, eru í göngufjarlægð frá Blikastöðum.

Fellin í og við Mosfellsbæ eru ákaflega vinsæl meðal göngufólks og þá liggja göngu- og reiðstígar víða. Mosfellsbær hefur merkt og kortlagt gönguleiðir sem liggja innan bæjarmarkanna á fellin af miklum myndarskap.

Gönguleiðir