Hverfið milli fells og fjöru

Fréttir

Verkefnið

Blikastaðir – Hverfið milli fells og fjöru

Jörðin Blikastaðir er einstaklega vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu og liggur að sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Landið er 90 hektarar að stærð og er fyrirhugað byggingarland um 70 hektarar.

Helstu gæði Blikastaðalands eru nálægð við fallega og ósnortna náttúru á sama tíma og landið er vel tengt höfuðborgarsvæðinu og verður það enn frekar með tilkomu Borgarlínu.

Uppbygging

Hverfið, sem mun rísa á Blikastöðum, verður hannað með það að markmiði að skapa sveitasælu með borgarbrag.

Fjöldi nýrra íbúðareininga verður 3.500-3.700 og verður blanda fjölbýla og sérbýla en gert er ráð fyrir að u.þ.b. 20% fjöldans verði sérbýli. Atvinnuhúsnæði verður meðfram Vesturlandsvegi og verður það u.þ.b. 66.000 fermetrar. Þá er gert ráð fyrir að á svæðinu rísi skólar og íþróttaaðstaða. Hverfið mun rísa í nokkrum áföngum og verður fullbyggt eftir u.þ.b. 12-17 ár. Í allri hönnun verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og leitast verður við að skapa vandað og mannvænt bæjarumhverfi.

Blikastaðabærinn

Hjarta hverfisins er og verður gamli Blikastaðabærinn, reisulegur bær með mikla sögu, sem mikilvægt er að varðveita. Stefnt er að því að standsetja gamla bæinn og útihúsin og glæða þau lífi, til dæmis með matsölustað, kaffihúsi og menningartengdri starfsemi.

Elstu heimildir um búsetu á Blikastöðum eru frá 1234 og því ljóst að búseta hefur verið á staðnum í tæplega 800 ár. Með nokkurri vissu má fullyrða að bæjarhúsin hafi staðið á svipuðum stað allan tímann. Núverandi íbúðarhús er talið vera byggt árið 1924 og var stækkað til vesturs 1947.

Fjósbyggingin reis á árunum 1924 til 1930 en það var síðan stækkað 1952. Eldri hlaða er talin hafa verið byggð 1920 og sú yngri 1936. Hesthúsið er líklega byggt á árunum 1924 til 1928.


Náttúran

Svæðið státar af stórkostlegri umgjörð, með Úlfarsá og Blikastaðakró til vesturs, Úlfarsfellið handan Vesturlandsvegar til austurs og Esjuna til norðurs

Útivistarperlan Úlfarsfell er að hluta í landi Blikastaða. Í hlíðum þess eru skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og nýtur fellið fádæma vinsælda meðal göngufólks.

Við Úlfarsána (Korpu) er auðugt lífríki og fjölskrúðugt fuglalíf. Laxveiði er í ánni og meðalveiði undafarin 10 ár hefur verið 200 laxar.

Úlfarsá fellur til sjávar í Blikastaðakró sem var friðlýst á degi íslenskrar náttúru árið 2022. Örstutt er í fjöruna í Blikastaðakró frá Blikastöðum en svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla.

Fallegur fjallahringur sést frá Blikastöðum. Úlfarsfell, Lágafell, Helgafell, Mosfell eru þar á meðal og ekki má gleyma sjálfri Esju. Þá er gott útsýni yfir Reykjavík og í góðu skyggni má sjá Akrafjall og alla leið upp á Snæfellsnes.

Afþreying

Mosfellsbær býður upp á mikla möguleika til útivistar og er nálægðin við einstaka náttúru og fallega staði sérstaða bæjarins.

Náttúruunnendur, golfarar, göngufólk, hestafólk og aðrir með áhuga á almennri útivist eiga öll að geta fundið sig í sínum áhugamálum á Blikastöðum.
Tveir golfvellir, Hlíðarvöllur í Mosfellsbæ og Korpúlfstaðavöllur sem tilheyrir Reykjavík, eru í göngufjarlægð frá Blikastöðum.

Fellin í og við Mosfellsbæ eru ákaflega vinsæl meðal göngufólks og þá liggja göngu- og reiðstígar víða. Mosfellsbær hefur merkt og kortlagt gönguleiðir sem liggja innan bæjarmarkanna á fellin af miklum myndarskap.

Gönguleiðir